140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ágætri ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar velti hann upp þeim áhugaverða vinkli að togstreita gæti myndast á milli ráðuneyta og jafnvel innan stofnana ef ekki væri ljóst nákvæmlega hvort undirstofnunin færi í heilu lagi undir viðkomandi ráðuneyti eða ætti með einhverjum hætti að heyra undir tvö ráðuneyti, eins og hefur heyrst í umræðunni og við höfum ekki fengið skýr svör við frá framsögumanni eða hæstv. forsætisráðherra eða öðrum þeim stjórnarliðum sem hafa lýst skoðunum sínum á því með hvaða hætti er hér verið að byggja upp nýtt stjórnarráðskerfi.

Því hefur hins vegar verið haldið fram að verið sé að taka upp eitthvert norrænt kerfi. Ég hef ítrekað bent á að í þeirri skýrslu starfshópsins sem kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hv. þingmaður situr í, er listað upp með hvaða hætti þetta er annars staðar á Norðurlöndum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að skýrari verkaskipting sé fólgin í því að þetta verði sett upp eins og það er til að mynda í Noregi þar sem landbúnaðarráðuneyti er með allar þær stofnanir sem heyra undir það, þar á meðal rannsóknarstofnanir og menntastofnanir, og síðan er sjávarútvegurinn með sitt, hafrannsóknastofnun og strandlengjustofnun — eins og var verið að ræða hér um haf og strönd þegar var verið að skipta upp Hagsýslunni en menn viku síðan illu heilli frá — hvort það sé ekki miklu betri aðferð en þetta samkrull undir því yfirskyni að verið sé að taka upp norrænt kerfi sem virðist ekki vera það. Er þingmaðurinn sammála mér um að þetta sé gerólíkt og að (Forseti hringir.) hættan sé sú til að mynda varðandi Hafrannsóknastofnun, svo að hún sé tekin sem dæmi, að ef hluti hennar á að heyra með einhverjum hætti undir umhverfisráðuneyti (Forseti hringir.) en hluti undir nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði hugsanlega togstreita bæði á milli ráðuneyta og innan (Forseti hringir.) stofnunarinnar?