140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:22]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að svara hv. þingmanni eins skýrt og mér er kostur við þessar aðstæður. Ég held að það sé hárrétt mat hjá hv. þingmanni að afstaða ýmissa hagsmunaaðila sem áður voru hugsanlega nokkuð jákvæðir eða hlutlausir gagnvart þeim breytingum sem hér er mælt fyrir hefur breyst, andstaða í þeirra hópi hefur aukist. Ég vil þó halda því til haga að innan atvinnulífsins og innan hagsmunasamtaka eru vissulega skiptar skoðanir um þetta, bæði innan einstakra samtaka og eins milli samtaka. Mismunandi skilaboð berast frá ólíkum samtökum í atvinnulífinu. En það er rétt sem hv. þingmaður segir, andstaðan virðist hafa aukist frá því að farið var í svokallað samráðsferli og greiningarvinnu veturinn 2010–2011. Ég hugsa að því betur sem menn hafa skoðað þessar hugmyndir þeim mun síður líst þeim á þær. Ég held til dæmis að óhætt sé að segja að ýmsum sem hafa almennt verið jákvæðir gagnvart því að hafa eitt atvinnuvegaráðuneyti lítist ekkert á hvernig á að útfæra það og þeim finnist það nokkurt áhyggjuefni að taka eigi þessa ákvörðun áður en nokkur útfærsla liggur fyrir. Það eru mjög skiljanlegar áhyggjur.

Eins og fram hefur komið eru skoðanir vissulega skiptar til dæmis innan atvinnulífsins um þessar breytingar en andstaðan hefur aukist frá því sem var þegar farið var í greiningarvinnu í fyrravetur.

Ég verð að koma að öðrum atriðum síðar.