140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni og beina því til frú forseta að hæstv. forsætisráðherra sé viðstödd þessa umræðu. Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr í dag að það væri mjög eðlilegt að afgreiða mál á færibandi úr þinginu og ég held að það hljóti þá að vera lágmarkskrafa hjá okkur þingmönnum að hæstv. forsætisráðherra láti svo lítið að standa að minnsta kosti við færibandið og fylgjast með þeirri afgreiðslu. Það gengur auðvitað ekki lengur að málum sé svo háttað að vanbúin mál komi inn í þingið og þau fái síðan ekki eðlilega þinglega meðferð og hæstv. ráðherrar sem bera málin uppi og reyna að keyra þau í gegn á færibandahraða, með aðstoð hv. þingmanna sem snúa færibandinu, séu ekki viðstaddir umræðuna. Ég vil beina því til frú forseta að athuga hvort hæstv. forsætisráðherra geti ekki látið svo lítið að koma hingað og hlýða á þær fjölmörgu ræður sem eru hér á dagskrá.