140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Lygin verður ekki að sannleika þótt hún sé endurtekinn trekk í trekk, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason reynir að gera í ræðustól Alþingis ítrekað. Það er ekki rétt að það sé vilji stjórnarandstöðunnar að þetta mál sé hér á dagskrá og það sé málið sem við erum að ræða. Það liggur fyrir að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar fóru þess á leit, lögðu fram tillögu í fullri einlægni, af heilum hug, um að höggva á þann hnút sem er á þingstörfunum til að greiða fyrir því að mál sem ríkisstjórnin telur brýn en greinilega ekki nógu brýn, ekki brýnni en þetta mál, komist til nefndar og fái þinglega meðferð. Því var hafnað, frú forseti, og það þýðir ekki fyrir hv. þm. Björn Val Gíslason að hamra á hinu (Forseti hringir.) ósanna, það verður ekki satt þótt það sé endurtekið.