140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er rétt tæpur klukkutími frá því að ég innti hæstv. forseta eftir því hversu lengi þessi þingfundur mundi standa inn í nóttina. Mig langar að gerast svo djörf að spyrja hvort hæstv. forseti gæti af sinni alkunnu mildi upplýst okkur sem erum í þinginu um það hvort forseti hafi tekið ákvörðun um hversu lengi fundur muni standa.

Fundir í hinum ýmsu þingnefndum munu hefjast kl. 8.30 í fyrramálið og ég tel augljóst að þingmenn þurfa að fá einhvern tíma til að búa sig undir þá fundi, þótt ekki væri nema eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á fyrr í kvöld, að fara í sturtu eða bað og jafnvel huga að fjölskyldu sinni sem er væntanlega heima sofandi.