140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú forgangsröðun sem skín í gegn með þessu máli er í raun alveg með ólíkindum. Ekki er hægt að koma upp í þessari umræðu öðruvísi en að ítreka það tilboð sem þingflokkar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa gert ríkisstjórnarflokkunum um að fresta umræðu um þetta mál og taka önnur mál til umræðu, ein 15 mál sem skipta miklu máli að okkar mati, og koma þeim í formlega nefndarvinnu þar sem svo stutt er eftir af þingi. Þeir útúrsnúningar sem forustumenn þingflokka ríkisstjórnarflokkanna hafa viðhaft og þau skilyrði sem þeir hafa sett fyrir því að þetta samkomulag geti gengið eftir eru með ólíkindum og þar er ekki boðið upp á neitt annað en að ljúka þessari umræðu og taka síðan til hendinni við önnur mál.

Hér var sagt í nótt að ummæli Björns Vals Gíslasonar væru með þeim hætti að hann tryði því að væri lygin nógu oft endurtekin yrði hún að sannleika en svo verður ekki í þessu máli, við munum halda þessum staðreyndum til haga. (VigH: Má Jón nota orðið lygi?) Þetta eru gælumál forsætisráðherra sem njóta forgangsröðunar og það er algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að þingstörf skuli vera með þessum hætti, og sú gagnrýni sem hér er höfð uppi um eitthvert málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar er innihaldslaus og merkingarlaus, sérstaklega eftir að tilboði okkar hefur verið hafnað.

Undirbúningur þessa máls stenst enga skoðun. Nefndin sem var skipuð í byrjun árs skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar sem eru í raun teknar sem heilagur sannleikur í þessu máli og öll hefðbundin meðferð þingmála er hunsuð. Það er ekki leitað umsagna og því er hvorki víkkuð út gagnrýnin á þetta mál né umræðan. Það er ekki gefinn kostur á því og það er auðvitað ekki hægt að sætta sig við það, við höfum í raun ekki þau gögn í höndunum og þá gagnrýnu umræðu af hálfu hagsmunaaðila sem er nauðsynleg til að Alþingi geti komist að eðlilegri niðurstöðu. Þetta gerist allt á sama tíma og ríkisstjórnin heitir breyttum vinnubrögðum, heitir því að opna mál og standa fyrir opinni og gagnsærri umræðu um allt. Þetta er framkvæmdin á því og við verðum ítrekað vör við hana í mörgum málum. Þetta er eins og með annað sem kemur fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, það er innihaldslaust í þessu tilliti.

Það að fara í þetta mál í eins miklu ósætti og augljóslega er innan ríkisstjórnarflokkanna um málið er líka sérstakt og greinilegt að menn treysta á Hreyfinguna, sem virðist vera orðinn angi af þessari ríkisstjórn, nánast formlegur samstarfsaðili ríkisstjórnarflokkanna. Við sjáum þessi pólitísku hrossakaup eiga sér stað í mörgum málum sem eru í raun ástæða þess að þingstörfin eru í því óefni sem raun ber vitni. Við sjáum þetta í fiskveiðistjórnarkerfinu, í rammaáætlun og mörgum fleiri málum.

Sú gagnrýni sem hér hefur komið fram á tímasetninguna er mjög eðlileg. Það er stutt eftir af kjörtímabilinu og kostnaðurinn við þetta er mjög mikill. Við horfum upp á það að núverandi ríkisstjórn verður búin að eyða um 500 milljónum þegar þessar breytingar, ef þær verða veruleika, fara í gegn, 500 milljónir í breytingar á Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili, virðulegi forseti, með þeim breytingum sem áður eru orðnar og svo ætlar ríkisstjórnin að bæta við skoðanakönnun í haust sem kostar aðrar 250 milljónir. Við erum að tala um 750 milljónir sem á að eyða í gæluverkefni forsætisráðherra. Þetta er forgangsröðunin á sama tíma og við horfum upp á uppsagnir og niðurskurð í velferðarkerfinu. Öðruvísi mér áður brá. Hér eru mörg kvennastörf í húfi, það kom fram í umræðunni í nótt að akkúrat á þessum tíma er verið að loka deild á stórri heilbrigðisstofnun og þar er verið að segja upp 28 konum. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þágu almennings í landinu að fara með 750 milljónir í gæluverkefni forsætisráðherra en höggva í knérunn vinnandi fólks og niðurskurðar í velferðarkerfinu. Þetta er dæmigert fyrir þau loforðasvik sem ríkisstjórnin hefur orðið uppvís að.

Ég hef miklar áhyggjur af atvinnumálum, þessu eina atvinnuvegaráðuneyti í tillögunni. Þar er margt óskýrt og sérstaklega á það við vistun stofnana og verkefna og þær áherslur í raun sem okkar mikilvægustu atvinnugreinum eru gerðar með þessari breytingu. Við vitum til dæmis ekkert hvar Hafrannsóknastofnun á að vera. Við sjáum að boðið er upp á mikið samstarf sem mun klárlega leiða til togstreitu á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis og ráðuneytis atvinnumála. Við höfum dæmi um þetta í öðrum málum, sérstaklega í rammaáætlun, hvernig þetta getur leitt til ómögulegrar niðurstöðu þegar farið er í pólitísk hrossakaup vegna þeirrar togstreitu sem er milli verndunarsjónarmiða í umhverfisgeiranum og nýtingarsjónarmiða í atvinnuvegaráðuneytunum. Það er verið að auka mjög á vægi allra verndunarsjónarmiða á kostnað nýtingarjónarmiða. Það er í raun alveg útilokað að gera það og þó að við eigum að bera fulla virðingu fyrir umhverfismálum og gerum það er alveg útilokað fyrir þjóð sem byggir afkomu sína alfarið á nýtingu náttúruauðlinda að þessu vægi sé raskað með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi. Nýtingarsjónarmiðin verða að minnsta kosti að vera í góðu jafnvægi við verndunarsjónarmiðin og þetta er fín lína sem þarf að feta.

Við sjáum afleiðingar þess, eins og ég kom inn á áðan, í rammaáætlun og þær eru stórhættulegar fyrir okkar þjóðarbú, þær eru stórhættulegar fyrir lífskjör almennings í landinu vegna þess að það er alveg ljóst hverjum sem það skoðar að efling lífskjara hér á landi mun ekki nást nema með nýtingu orkuauðlindanna með miklu öflugri hætti en lagt er til í rammaáætlun.

Ég kom inn það á líka í ræðum í nótt að ég hef miklar áhyggjur af hvalveiðimálum. Hvar verða þau vistuð? Þessi atvinnugrein sem er nú aftur að skapa sér sess í íslensku samfélagi verður innan skamms og er nú þegar orðin mikilvæg útflutningsgrein. Hún styður við jafnvægi í lífríkinu í hafinu með eðlilegri nýtingu á þessum stóru stofnum. Maður hefur áhyggjur af því að þetta verði fært undir umhverfisráðuneytið eins og gert er í löndum víðast hvar í Evrópusambandinu og reyndar víða um heim með þeim afleiðingum sem við sjáum birtast í þeim sirkus sem fundir Alþjóðahvalveiðiráðsins eru. Þetta er algerlega óásættanlegt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína eins mikið og raun ber vitni á nýtingu þessara auðlinda.

Ef við drögum þetta saman, virðulegi forseti, stendur fátt upp úr sem mælir með þessu, ef nokkuð. Niðurstaðan er hreinlega sú að við erum búin að fara í breytingar á Stjórnarráðinu fyrr á þessu kjörtímabili. Það er stutt síðan þær voru framkvæmdar. Það liggur nokkuð fyrir hvað þær kostuðu okkur, hvað þær kostuðu ríkissjóð, en reynslan af framkvæmdinni að öðru leyti er ekki komin. Það væri miklu nær að láta þá reynslu koma betur í ljós áður en lengra er haldið. Málið er alls ekki tímabært vegna þess hve stutt er eftir af kjörtímabilinu og mjög ólíklegt, miðað við hvernig málið er lagt upp hér, að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum næst muni vilja fylgja þeirri línu sem hér er lögð. Það mælir mjög á móti þessu máli hve samstaðan um þetta er lítil í þinginu þar sem þyrfti að vera breið samstaða um þessi mál og innan stjórnarflokkanna. Það er mikil andstaða víða hjá hagsmunaaðilum við þetta mál, ekki hefur verið hlustað á sjónarmið þeirra og þeim hefur ekki verið gefið tækifæri til að skila skriflegum umsögnum til nefndarinnar (Forseti hringir.) og svo er kostnaðurinn þar að auki. Þetta eru hinar neikvæðu hliðar, þetta er það sem mælir á móti þessu máli. Þetta eru mjög stór atriði (Forseti hringir.) og mikilvæg og ég legg því til að ríkisstjórnin stöðvi þetta mál og við förum að taka mikilvægari mál til umræðu í þinginu.