140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að taka undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur varðandi húsnæðissamvinnufélögin. Það kom reyndar líka fram í svari hæstv. ráðherra hver hans sýn á þau er. Það er mikilvægt að við útilokum ekki það kerfi með þeim breytingum sem við erum að gera hér og eins er mjög mikilvægt að það sé alveg á hreinu þegar málið verður afgreitt úr nefndinni að það sé skilningur allra hvernig það er gert og ekkert humm og ha í kringum það.

Maður gerir sér auðvitað grein fyrir því að þó svo að menn vilji stoppa í þetta gat — og ég tel bara mjög mikilvægt að menn taki heiðarlega umræðu um það sem gerðist á þeim tímum þegar hér voru byggingarfélög sem byggðu margar íbúðir og leigðu þær síðan leigufélögum og fengu greitt fyrir þær frá félögunum og svo sjáum við í þessu frumvarpi að Íbúðalánasjóður er búinn að yfirtaka mjög mörg leigufélaganna — og þó svo að markmiðið sé hugsanlega að reyna að setja einhverjar hömlur á slíka hluti má náttúrlega ekki ganga svo langt að það fari gegn hugmyndunum um húsnæðissamvinnufélög og að með þeim verði hægt að búa til almennilega virkan leigumarkað.

Mig langar að koma örstutt inn á það sem ég ræddi áðan við hæstv. ráðherra að ég tel mjög mikilvægt að farið verði í þá vinnu að menn setjist niður, bæði Íbúðalánasjóður og ráðuneytið og hugsanlega Samtök sveitarfélaga, og ræði með hvaða hætti hægt sé að endurleigja þær íbúðir sem Íbúðalánasjóður á og standa auðar. Hugsanlega er það vegna samkeppnislaganna sem Íbúðalánasjóður treystir sér ekki til að leigja þær, og að þeirri vinnu verði hraðað.

Þar sem ég þekki til, í því sveitarfélagi sem ég bý, var leigufélag sem Íbúðalánasjóður tók yfir og það var nánast eini aðilinn á leigumarkaðnum fyrir utan sveitarfélagið. Mikil þörf er á leiguhúsnæði á þessu svæði og þegar fyrir liggur að eini aðilinn á leigumarkaði er sveitarfélagið og það er jafnvel sveitarfélagið sjálft sem vill leigja eða hafa milligöngu um leigu af Íbúðalánasjóði eru að sjálfsögðu engir samkeppniserfiðleikar á þeim markaði. Auðvitað þarf að gera þetta varlega en samt er mjög mikilvægt að þetta sé gert vegna þess að bæði hlýst mjög mikill kostnaður af þessu og óhagræði sem lendir að sjálfsögðu á ríkissjóði og svo er auðvitað mikilvægt að fólk geti fengið leigt húsnæði þar sem atvinna er og möguleikar á að sjá fyrir sér og sínum.

Ég vildi beina einni spurningu til hæstv. ráðherra áður en hann kemur í lokaræðu sína. Ég vil ítreka og kalla eftir sjónarmiðum hæstv. ráðherra, af því að hann tók undir með mér í andsvörum áðan eða svörum réttara sagt að hann teldi mikilvægt að fara í þessa vinnu og við deilum ekki um það. Hvenær sér hann fyrir sér að þetta gæti legið fyrir? Að málið verði klárað með þeim hætti sem við höfum rætt hér að það væri þá samkomulag við Samkeppniseftirlitið og að farið verði af stað með þessa vinnu þannig að hægt verði að leigja þessar íbúðir sem sannarlega er þörf fyrir en standa auðar í dag?

Að lokum vil ég segja að í frumvarpinu, alla vega við fyrsta yfirlestur og eftir því sem ég hef farið yfir það í grófum dráttum, er svo sem ekkert sem ég er á móti. Ég tek undir það og vil líka hvetja hv. velferðarnefnd til að vanda vinnu sína og ég tel mikilvægt og tek undir það með hæstv. ráðherra að klára þurfi málið á þessu þingi ef það er mögulegt.