140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma fram sjónarmiðum framsóknarmanna í þessu máli. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og get lýst því yfir að við erum ekki sammála þessu máli. Við höfum mjög miklar efasemdir um að það eigi að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á varðandi heiðurslaun listamanna og hefðum frekar viljað nota þessa peninga í annað, þ.e. í að styðja við unga listamenn, og teljum að það hefði komið miklu fremur að gagni en að greiða laun til hóps listamanna sem er kominn á ákveðinn stall í samfélaginu þó að við berum gríðarlega mikla virðingu fyrir þeim listamönnum. Við teljum að þetta kerfi sé barn síns tíma þannig að við styðjum ekki þetta mál.

Það sem er jákvætt við málið er að ef menn styðja almennt að við höldum áfram inn í framtíðina með svokölluð heiðurslaun listamanna er fínt að lögbinda það í staðinn fyrir að ákveða hér árlega hvernig eigi að gera þetta, hverjir eigi að vera á listanum og takast á um það með leiðinlegum pólitískum svip sem því miður hefur verið á þessu máli stundum, ekki alltaf. Það er jákvætt að setja lagaumgjörð utan um málið.

Við teljum að ekki hefði átt að binda þessi mál í lög yfirleitt heldur afnema kerfið í heild sinni og nýta fjármagnið í að styrkja unga, upprennandi listamenn sem margir þurfa á styrkjum að halda til að geta sinnt list sinni. Það væri miklu betri nýting á fjármagninu.

Við komum því á framfæri bæði 2010 og 2011 að við vildum ekki fjölga í hópi þeirra sem þiggja heiðurslaun, m.a. vegna niðurskurðar í fjárlögum. Í fjárlögum fyrir árið 2012, þ.e. á yfirstandandi fjárlögum, var samt ákveðið að fjölga á listanum. Við vildum það ekki. Við töldum að þar sem verið er að skera niður í velferðarþjónustu og annarri grunnþjónustu ætti ekki að auka útgjöld á þessum lið. Það var samt gert og það var gagnrýnt á ýmsan hátt. Ég vil koma því sérstaklega á framfæri að það snerist ekkert um þann aðila sem bættist við listann, alls ekki, heldur bara að það væri yfirleitt bætt á listann í núverandi árferði.

Við erum búin að hlusta á framsögumann allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem kom því hér mjög skýrt á framfæri að þetta snerist ekki um peningana, að þetta snerist um heiðurinn. Síðan kemur hingað hv. þm. Mörður Árnason og lýsir því að peningarnir skipti gríðarlega miklu máli og að menn sem vilja ekki viðhalda þessu kerfi verði þá að svara því hvað eigi að gera við eldri listamenn sem njóti ekki lífeyrissjóðsréttinda o.s.frv. Það skipti greinilega mjög miklu máli vegna peninganna. Og þá hlýtur maður að spyrja sig, ef það skiptir svona miklu máli í sambandi við fjármagnið — auðvitað skipta peningar miklu máli — eiga þá 25 að njóta þessara hálfgerðu lífeyrisgreiðslna en ekki aðrir? Af hverju 25? Af hverju ekki færri eða fleiri? Mér finnst ekki mikil hugsun í þessari umræðu.

Við höllumst að því að ekki eigi að viðhalda heiðurslaunum listamanna í þessu formi. Listin er mjög mikilvæg og það er hárrétt sem hér hefur komið fram að hún skapar okkur miklar tekjur og skiptir okkur miklu máli sem siðað samfélag og andlega og fagurfræðilega. Almennt ber að tala listir upp í samfélaginu að mínu mati en það á ekki að viðhalda heiðurslaunum listamanna í þessu gamla formi sem það er í, heldur nota sömu upphæð, jafnvel hærri upphæð, til að styrkja unga listamenn.

Núna fara 44 millj. kr. í heiðurslaun. Mér skilst að það séu um 1,6 milljónir á mann á árinu. Er það mikið eða lítið? Menn geta rifist um það, en í 4. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Heiðurslaun listamanna eru veitt listamanni að fullu til sjötíu ára aldurs og skulu vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt verði þau 80% af starfslaunum til samræmis við eftirlaunarétt sem aðrar stéttir vinna sér inn.“

Mér skilst að þau starfslaun sem hér er miðað við til sjötugs séu um 275 þús. kr. á mánuði. Ég sá það að minnsta kosti í fjölmiðlum við leit áðan.

Mér finnst eitthvað rangt við það að vera hér með lista 25 manna, nú eru þeir 28, sem Alþingi er með á hálfgerðum launalista hjá sér. Það er eitthvað rangt við þetta, þetta er bara barn síns tíma. Við teljum að það eigi að nota þessa peninga öðruvísi fyrir listina samt og styrkja unga, upprennandi listamenn.

Heiðurinn skiptir máli, það er alveg rétt, en heiður skiptir alla máli, ekki bara listamenn, heldur aðra í samfélaginu líka. Það er ákveðið form sem við höfum í dag um það að heiðra fólk almennt. Ég bendi til dæmis á að forsetaembættið veitir fálkaorður, það er gert tvisvar á ári. Ákveðin nefnd fer yfir það, það má koma með ábendingar og það er allt skoðað ofan í kjölinn. Það er gríðarlegur heiður að fá fálkaorðuna en henni fylgir ekkert fjármagn. Við erum með ákveðið kerfi í samfélaginu varðandi það að heiðra fólk.

Ég vil bara koma því skýrt á framfæri að Framsóknarflokkurinn hefur tekið þessa umræðu. Við erum ekki sammála þessu máli og styðjum það ekki. Við erum mjög hlynnt listum. Það er alltaf svolítið leiðinleg umræða sem fer í gang þegar rætt er um heiðurslaun leitarmanna og reynt að klína því á þá sem hafa efasemdir um þetta kerfi að þeir séu mjög gagnrýnir á list eða listamenn. Það er alls ekki þannig. Við berum gríðarlega mikla virðingu fyrir listamönnum og þeirri list sem þeir skapa en teljum ekki að það eigi að viðhalda þessu kerfi sem að okkar mati er úrelt heldur nota sömu peninga í að styrkja unga, upprennandi listamenn og líta á listina meira eins og aðrar skapandi greinar og aðrar atvinnugreinar. Það á ekki að taka einhverja grein út fyrir sviga og vera með hálfgerðan launalista sem Alþingi greiðir eftir árlega. Það væri nær að setja þessa peninga í sjóð sem ungir, upprennandi listamenn geta sótt í og peningarnir væru þeim til hagsbóta. Við teljum að þannig kæmi meira út úr fjármagninu og það væri réttari forgangsröðun.

Við styðjum því ekki þetta mál en ég get þó sagt að ef meiri hluti Alþingis vill viðhalda þessu er skárra að setja þetta í lög en að hafa kerfi eins og við höfum haft hingað til, þ.e. að ákveða árlega þennan lista og vera í togi um hverjir eigi að vera inni á honum þegar við er bætt. Það hefur verið mjög þreytandi og erfitt en ég óttast því miður að það tog muni viðhaldast áfram þrátt fyrir að við setjum þetta í lög af því að það er Alþingi sem á að ákveða listann að lokum. Alþingi fær aðstoð nefndar úti í bæ, má segja, en þarf ekkert að fara eftir niðurstöðunni. Ég held því miður að þetta tog muni þannig jafnvel viðhaldast hér innan dyra. Það er skaði ef við þurfum áfram að rífast um þetta í framtíðinni. Við hefðum miklu frekar viljað setja þessa peninga í sjóð og styðja unga, upprennandi listamenn og við berum gríðarlega virðingu fyrir listamönnum almennt í landinu.