140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að geta þess samhengisins vegna að hæstv. forsætisráðherra var spurð um þetta 7. desember síðastliðinn en hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, var spurður svipaðra spurninga tveim dögum áður og gaf vægast sagt loðin svör. Tilefnið var orðrómur í fjölmiðlum um að setja ætti hæstv. fyrrverandi ráðherra Árna Pál Árnason út úr ríkisstjórninni og sameina efnahagsmálin undir fjármálaráðuneytið. Hæstv. fjármálaráðherra var spurður um það 5. desember og bað hann þingmenn að vera ekki að eltast við slúður í fjölmiðlum.

Svo getum við séð hver reynslan er, hvað hefur komið á daginn. Hv. þm. Árni Páll Árnason missti ráðherrastólinn um áramótin og nú er verið að leggja til þessa breytingu. En það sem er athyglisvert er að þrátt fyrir að þessar vangaveltur hafi verið uppi hjá hæstv. fjármálaráðherra, að því er virðist í byrjun desember, þá höfðu þær ekki náð eyrum hæstv. forsætisráðherra.