140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:47]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hvet hv. þingmann til að kalla eftir þessari umræðu í utanríkismálanefnd. Mér er kunnugt um það sem ráðherra, og við vitum það öll, að krafist var nánari áætlunar af hálfu íslenskra stjórnvalda um opnun á landbúnaðarkaflanum og byggðakaflanum, m.a. hvað það varðaði að sýna þyrfti fram á að Ísland hefði nægilega sterka stjórnsýslu til að taka að sér hið nýja styrkjakerfi sem Evrópusambandinu fylgir.

Nú er verið að vinna að þessum svörum og var þegar byrjað á því þegar ég var ráðherra. Ég spyr hv. þingmann hvort hann viti til þess að í þessum svörum sé hreinlega gert ráð fyrir því að búið sé að breyta ráðuneytunum, leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og sameina það iðnaðarráðuneytinu, m.a. til að falla betur að þeim óskum og kröfum sem Evrópusambandið hefur sett. Er þetta (Forseti hringir.) nú þegar komið inn í texta sem verið er að vinna til að senda Evrópusambandinu?