140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

dómur yfir flóttamönnum á unglingsaldri.

[10:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna svari hæstv. innanríkisráðherra við þessu og spyr þá í framhaldinu hvað líði endurskoðun á flóttamannalögum, þessum ramma utan um móttöku flóttamanna, og viðbrögðum við hælisleitendum.

Það eru auðvitað lög og reglur í landinu. Ég dreg að vísu í efa að hér hafi verið farið að flóttamannasamningnum og ég dreg líka í efa að hér hafi barnasáttmálinn verið virtur en hér eru auðvitað hefðir og reglur. Þær hafa verið mjög þröngar og stífar og eitt af því sem gerist í þessu máli og vekur undrun er að eftir þennan dóm um óskilorðsbundið fangelsi yfir mönnum sem segjast sjálfir vera 15 og 16 ára — enginn getur dregið það í efa, þeir eru að minnsta kosti ekki rígfullorðnir karlmenn í útliti — er næsta frétt sú að þeir hafi ekki áfrýjað dómnum vegna þess að lögmaðurinn sem kallaður er til virðist ekki vera starfi sínu vaxinn. (Forseti hringir.) Ég er ekki vanur að tala þannig um fjarstadda menn en hér er bara ekki hægt að gera annað. Af hverju er slíkur lögmaður kallaður til? Af hverju er ekki talað við Rauða krossinn eða þá lögmenn á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess (Forseti hringir.) sem hafa sérstaka þekkingu og reynslu í málefnum flóttamanna? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta vekur athygli og í þessu felast mistökin meðal annars.