140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður endaði þegar hann fór að tala um rökstuðninginn fyrir þessari þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra. Hann kom inn á það að greinargerðin með henni væri einungis fimm blaðsíður. Það hefur komið fram í umræðum um málið, bæði núna við síðari umr. sem og við fyrri umr., að í nefndarvinnunni milli umræðna var ekki leitast við að bregðast við þeim áhyggjum manna sem komu fram við fyrri umr.

Meðal annars hefur komið fram að menn draga verulega í efa það sem hæstv. forsætisráðherra sagði um að það yrði sparnaður af að sameina þessi ráðuneyti. Svo berast okkur fréttir af því að það eigi að setja aðstoðarráðherra þannig að það verði sami fjöldi ráðherra. Menn hafa dregið í efa að þetta stuðlaði að sparnaði og sumir halda því fram að kostnaðarauki felist í þessu.

Það hefur líka komið fram mikil gagnrýni á þann málflutning hæstv. forsætisráðherra að þetta mál valdi því með einhverjum hætti að ráðherrar hafi betri yfirsýn yfir málaflokka og að þetta auki skilvirkni og formfestu. Við fyrri og síðari umr., bæði hjá stjórnarliðum, sumum hverjum, og stjórnarandstæðingum, kom fram gagnrýni á þetta og margir hafa talað um að þetta muni hugsanlega auka flækjustigið og völd embættismannanna sem dragi þá úr yfirsýn ráðherranna.

Varðandi þessa tvo þætti, annars vegar hvort þetta sé sparnaður eða kostnaðarauki og hins vegar hvort þessi þingsályktunartillaga og sameining ráðuneyta muni skila aukinni skilvirkni og formfestu, spyr ég: Hvað heldur hv. þingmaður um þetta? Er hann sammála því? Telur hann að sú breyting (Forseti hringir.) sem við erum að ræða hér muni skila þessu eða telur hann að þetta verði til hins gagnstæða?