140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar.

Ég hef velt því fyrir mér og hef komið inn á það í fyrri ræðum af hverju menn leggja svona mikla áherslu á breytingar Stjórnarráðsins. Hvers vegna þarf að gera þetta núna og hvers vegna má ekki taka fyrir brýnni mál eins og stöðu heimilanna eða stöðu fyrirtækjanna, búa til forsendur fyrir atvinnu eða annað slíkt? Ég held að stikkorðið sé, herra forseti, auðlindaráðuneytið.

Margir grænir þingmenn Vinstri grænna — þeir eru ýmist grænir eða vinstri, enginn þeirra er hvort tveggja — hafa einmitt lagt ofuráherslu á auðlindaráðuneytið vegna þess að þeir ætla sér að nota það eða vilja að það verði nýtt í samvinnu við umhverfisráðuneytið til að stöðva allar virkjanir á Íslandi. Það er þeirra draumur. Þeir geta haft þann draum, en mér finnst þá að þeir eigi að segja það beint út að þeir ætli sér að stöðva allar virkjanir og alla framþróun á Íslandi og gera eitthvað annað.

Hinn þátturinn varðar Evrópusambandið. Það er engin spurning að mínu mati að brottvikning fyrrv. hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, stóð í beinum tengslum við umsóknina að Evrópusambandinu. Hann var óþægur ljár í þúfu og það þurfti að losa sig við hann. Það var mjög einfalt. Ég held að það sé ástæðan, ég held að það að sameina ráðuneyti núna sé ekki gert til að þóknast Evrópusambandinu. Ég sé ekki þá tengingu, af því það er búið að losa sig við hæstv. fyrrv. ráðherra Jón Bjarnason. Ég sé ekki þá tengingu beint, en það má vel vera að hv. þingmaður sjái hana.

Ég held að þetta snúist bæði um að fá að ráða og svo um auðlindaráðuneytið.