140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég er dálítið hræddur um að orðið „fásinna“ sé einmitt orðið yfir þetta. Menn hafa rætt um kostnaðinn, beinan kostnað við þessar aðgerðir, til að mynda hefur töluverður kostnað farið í breytingar á húsnæði og ljóst er að sá kostnaður mundi aukast verulega ef þetta næði allt fram að ganga. Ég gæti best trúað því að óbeini kostnaðurinn, kostnaðurinn af þeim áhrifum sem hv. þingmaður lýsti, væri engu minni en sá kostnaður sem einfalt er að reikna út vegna breytinga á húsnæði og öðru slíku. Það leiðir nefnilega verulegt tjón af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Við sjáum það reyndar núna svart á hvítu í nýju mati á áhrifum rammaáætlunar þar sem tjón vegna breytinga sem gerðar hafa verið á henni er metið á 270 milljarða, en það tjón sem hlýst af því að ráðuneytin séu ekki í stakk búin til að sinna hlutverki sínu er líka umtalsvert.