140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg frá upphafi, frá því að sú hugmynd kom fyrst fram að búa til þetta nýja atvinnuvegaráðuneyti og þá var auðvitað mjög skýrt kveðið á um að ætlunin væri að taka þann þátt sem sneri til dæmis að Hafrannsóknastofnuninni út úr ráðuneytinu og setja inn í umhverfisráðuneytið, alveg frá þessum tíma hafa þeir sem hafa komið að málinu kvartað mjög undan skorti á samráði.

Þá var reynt að bregðast við með því að setja á svona sýndarsamráð, eins og hv. þm. Jón Bjarnason upplýsir okkur hér um. Í hverju felst þetta sýndarsamráð? Jú, það eru haldnir margir fundir, þeir eru tölusettir og greint er frá því hversu margir fundir hafi verið haldnir. Og það mætti þá kannski líka segja frá því, af því að það skiptir örugglega miklu máli í þessu samhengi, hversu margir kaffibollar hafi verið drukknir. Það er augljóst mál að það er kannski fyrst og fremst það sem hefur komið út úr þessu samráði, að menn hafi átt saman samdrykkju með kaffibollana fyrir framan sig, því að ætlunin var greinilega aldrei sú að hlusta á þá sem leitað var eftir samráði við. Að vísu sjáum við að menn hafa séð að það var nánast óvinnandi vegur að ætla að slíta Hafrannsóknastofnun algjörlega undan atvinnuvegaráðuneytinu þannig að þetta var gert með þeim hætti að búa til einhverja svona lykkju þar sem aðkoma annars ráðuneytis að stærstu ákvörðunum þeirrar stofnunar yrði síðan tryggð.

Eins og ég rakti áðan er það auðvitað þannig að eins og málin eru útskýrð í nefndarálitinu, og eins og maður hefur þó getað togað út með töngum í andsvörum við einstaka hæstv. ráðherra, er gert ráð fyrir að umhverfisráðuneytið eigi að hafa talsverða aðkomu þarna. Reyndar er gert mjög úr því, til að mynda af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, að þessi aðkoma eigi að vera mjög mikil. Enda til hvers ætti þetta ráðuneyti að hafa aðkomu að málinu nema vegna þess að ráðuneytið ætlaði sér líka að hafa áhrif á og kannski stjórna niðurstöðunni?

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þetta segir okkur (Forseti hringir.) að þetta er allt saman sýndarleikur. Þetta eru leiktjöld og fullkomið sýndarsamráð.