140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði hér. Það sem hv. þingmaður er að segja er að það var byrjað á öfugum enda, það var byrjað þar sem við hefðum átt að ljúka verkinu. Það hefði auðvitað verið skynsamlegast að reyna að átta sig á hvort hægt væri að skipa þessum málum með skilvirkari og betri hætti og síðan mundu menn enda á því að máta það við ráðuneytin eins og menn vildu hafa það og teldu skynsamlegast.

Ég held að menn verði líka að átta sig á hverjir hafa mesta hagsmuni af því að ráðuneytin séu skilvirk og undan þeim gangi og þar sé vel staðið að málum. Það eru hagsmunaaðilarnir og almenningur. Þegar hagsmunaaðilar segja, það er ekki mjög skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti, þá horfa þeir á þetta með augum þeirra sem eiga dagleg samskipti eða mikil samskipti við ráðuneytin og sjá auðvitað að það skiptir miklu máli að skipulag ráðuneytanna sé vel virkt.

Ég ætla að fullyrða að eins og þarna er verið að stilla upp málum þá er þetta allt saman í algjörri óvissu og þó að við séum búin að tala um þetta mikla mál í fáeinar klukkustundir hefur það ekki orðið (Forseti hringir.) til þess að málið hafi neitt skýrst.