140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að rifja aðeins upp fyrir hv. þm. Jóni Bjarnasyni þegar forsvarsmenn landshlutasamtaka á Norðurlandi vestra komu í fyrrahaust margítrekað alvarlegum ábendingum til stjórnvalda, til þingmanna, um þá stöðu sem þar var uppi og þurfti að bregðast við. Þá þurftu þingmenn kjördæmisins að skrifa sameiginlegt bréf og biðja hæstv. forsætisráðherra að sjá af smástund til að taka á móti þessum forustumönnum sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra. Það hefði verið ærin ástæða að funda með þeim miklu fyrr miðað við það sem þeir lögðu á borð stjórnvalda.

Hv. þingmaður hefur staðið í lappirnar gagnvart Evrópusambandinu og þeirri aðlögun sem á sér stað, til að mynda hvað sneri að makríldeilunni. Manni finnst eins og íslensk stjórnvöld séu oft og tíðum að þjónkast Evrópusambandinu og maður skilur ekki á hvaða vegferð þau eru. Því langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem gerðist akkúrat þegar hann var að spyrna við fótum, sérstaklega í makríldeilunni og mörgum öðrum málum. Þá var ekki nóg að reka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að standa í lappirnar heldur varð að fylgja því meira og þá var aðalsamningamaður ríkisins, Tómas Heiðar, mjög fær maður, látinn hætta líka. Maður er alveg gáttaður á þessum vinnubrögðum. Menn umgangast Evrópusambandið þannig að maður skilur hvorki orðið upp né niður í þeirri virðingu sem stjórnvöld á hverjum tíma sýna því eins og núna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum hafi fundist um það þegar aðalsamningamanni Íslands, Tómasi Heiðar, var í raun og veru sagt upp störfum eða hann látinn hætta að semja fyrir hönd Íslands í þeirri deilu.