140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Eins og fram kom í ágætu andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur er ljóst að málið snertir ýmsa þætti í íslenskri stjórnsýslu. Komið hefur gagnrýni á þessa þingsályktunartillögu víða að frá hv. þingmönnum. Komið hefur mjög einbeitt gagnrýni innan úr stjórnarherbúðunum sjálfum þannig að það er ekkert óeðlilegt við að við köllum eftir fyllri rökstuðningi fyrir þeim breytingum sem þarna er verið að gera.

Eins og ég sagði hef áður sagt í ræðu liggur meginvandinn í því að óskað er eftir stuðningsyfirlýsingu Alþingis um einhverjar breytingar sem ætlunin er að gera án þess að Alþingi sé upplýst um það í smærri atriðum hvers eðlis það er og hvernig málum verður skipað ef það lýsir yfir stuðningi við þessar fyrirætlanir. Það er illt að þurfa að efna til ófriðar um þessar breytingar. Það er sömuleiðis illt að þurfa að standa frammi fyrir því að þær breytingar sem stjórnarmeirihlutinn vill gera komi ekki til framkvæmda fyrr en seint í haust. Þótt manni þyki langt í það er samt tiltölulega stutt í að nýtt Stjórnarráð taki við á árinu 2013.

Ég vil samt sem áður leyfa mér að efast um að sá tími sem til stefnu er nú í sumar dugi til þess að yfirlýst markmið þessarar þingsályktunartillögu um að væntanlegar breytingar taki gildi 1. september á þessu ári nái fram að ganga. Ég tel það sé langt í frá nægilega rúmur tími ef menn vilja vanda sig við undirbúninginn.