140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég skal alveg viðurkenna að ég bíð spenntur eftir því að heyra svarið við síðari spurningu minni því að það kallar á nokkuð ítarlega útlistun geri ég ráð fyrir. Það verður ánægjulegt að heyra hvaða öfluga samráð í anda gegnsæis og samráðs, eins og núverandi stjórnvöld predika, hafi átt sér stað á milli oddvita stjórnmálaflokkanna hér á þingi.

Ég vil líka í annan stað nefna og inna hv. þingmann eftir hver afstaða hans sé til þeirra áforma sem í þingsályktunartillögunni felast varðandi hugmyndir, tilraunir til útfærslu á verkefnum einstakra ráðuneyta, þar sem fram kemur að ætlunin er að skipa verkefnum Fjármálaeftirlitsins og Fjármálaeftirlitinu sjálfu undir atvinnuvegaráðuneytið, hvernig það leggist í hv. þingmann og hvernig honum finnist það falla að þeirri stefnumörkun sem unnið hefur verið að af hálfu stjórnvalda í samráði við Kaarlo Jännäri og þá sérfræðinganefnd sem undir forustu hans starfar, hvort hann væri tilbúinn til að hafa nokkur orð um það efni.

Svo að lokum aðeins varðandi þann kostnað sem af þessu leiðir. Það er margsannað og hefur sýnt sig að áætlaður kostnaður við breytingar á Stjórnarráðinu í krónum talið, sem lagður hefur verið fram með þeim málum sem hingað hafa borist til okkar og í okkar vinnslu, að sá kostnaður sem áætlaður hefur verið hefur einfaldlega verið allt of lágur. Ég held að margt sé ótalið í þeim efnum og tek undir þau sjónarmið hjá hv. þingmanni að það er ekki allt talið. Ég nefni sem dæmi að velferðarráðuneytið og þá stóru sameiningu sem þar var framkvæmd. Ekki var allur kostnaðurinn þar talinn og sérstaklega vil ég taka undir orð hv. þingmanns um það að seinkunin, flækjustigið í vinnulaginu kostar mikla fjármuni.