140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 83/2011 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

351. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2011 og fjallar um opinber innkaup.

Utanríkismálanefnd hefur haft þetta mál til meðferðar en markmið þessarar tilskipunar er að auka skilvirka réttarvernd hagsmunaaðila í meðferð kærumála vegna gerðra samninga um opinber innkaup, meðal annars með því að samningsgerð stöðvist sjálfvirkt eftir að kæra hefur borist kærunefnd útboðsmála og að nefndin geti lýst samninga óvirka. Með reglugerðunum eru gerðar breytingar á formi staðlaðra tilkynningareyðublaða vegna opinberra innkaupa auk þess sem tilteknum viðmiðunarfjárhæðum vegna slíkra innkaupa er breytt.

Innleiðing þessarar tilskipunar og reglugerðanna kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007, með síðari breytingum, um það efni.

Nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.

Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.