140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 85/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

539. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru auðvitað mjög eðlilegar spurningar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ber hér fram. Eins og ég gat um er ég ekki framsögumaður nefndarinnar með þessu málum en þetta mál var hins vegar rætt og sú hlið málsins sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni var rædd á vettvangi nefndarinnar. Þess vegna kemur fram í nefndaráliti matið á þeim kostnaði sem innleiðingin kann að hafa fyrir ríkissjóð, sem er talin óverulegur, en hins vegar er bent á að þetta kunni að hafa í för með sér kostnað, ekki síst fyrir sveitarfélögin.

Það kemur líka fram, eins og ég gat um í framsöguræðunni, að þessi tilskipun hefur að uppistöðu til þegar verið lögleidd í lögum frá árinu 2003 og hér er verið að gera nokkrar breytingar til fyllingar. Eins og ég nefndi mun umhverfisráðherra flytja frumvarp í þessu sambandi. Það kemur líka fram að það mun verða haft víðtækt samráð við önnur stjórnvöld, þ.e. sveitarfélögin, við atvinnulífið, almenning og hagsmunaaðila, og þegar frumvarpið kemur fyrir þingið verður auðvitað farið rækilega yfir kostnaðarmat og aðra slíka hluti. Hér erum við eingöngu að tala um þingsályktunina sem heimilar innleiðingu á þessari gerð en síðan þarf að koma lagafrumvarp þar sem útfærsluatriðin eru nákvæmlega tilgreind og því þarf að fylgja kostnaðarmat eins og lög gera ráð fyrir.