140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrir sléttri viku spunnust í þessum sal harðar umræður undir liðnum um fundarstjórn forseta. Tilefnið var fyrirspurn hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar til efnahags- og viðskiptaráðherra og orð sem hann lét falla úr þessum ræðustól um Þórólf Matthíasson prófessor. Í kjölfarið spunnust hér umræður um hvernig þingmenn ræða um fjarstatt fólk úr þessum ræðustól, fólk sem ekki getur svarað fyrir sig á sama vettvangi.

Frú forseti. Ég viðurkenni að mér hljóp kapp í kinn, ég stökk til og prentaði í snatri út bréf sem forsætisnefnd hafði borist sama dag eða daginn áður þar sem Björg Eva Erlendsdóttir kvartaði undan orðum sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hafði haft um hana sjálfa í þessum ræðustól.

Þetta voru mistök.

Ég tel hvorki rétt né eðlilegt að taka hér til umræðu erindi sem forsætisnefnd hefur ekki fengið tækifæri til að taka fyrir og ræða á fundum sínum og ég biðst velvirðingar á þessum mistökum. Ég hef þegar rætt málið á fundi forsætisnefndar og treysti því að þessi mistök mín verði ekki til þess að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson eða forsætisnefnd skorist undan því að bregðast við beiðni bréfritara.