140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég á sæti í fjárlaganefnd. Þar hefur að undanförnu verið rætt um mögulega lánveitingu ríkissjóðs til handa fyrirtækinu Vaðlaheiðargöng ehf. en þar stendur til að lána eina 8,7 milljarða til fyrirtækis sem er með 600 millj kr. eigið fé. Ég er þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem verið er að leggja upp með í þessu máli skapi hættulegt fordæmi og óæskilegt hvað það varðar hvernig við umgöngumst ríkissjóð. Ég vil því nota þetta tækifæri, frú forseti, og beina því til þeirra þingmanna sem hafa lagt fram þetta mál að setjast nú niður og búa málið í annan búning. Það er ekki hægt að setja þingið í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu til þessarar framkvæmdar og að þeir sem styðja framkvæmdina séu settir í þá stöðu að þurfa að segja nei við henni vegna þess hvernig málið er til komið og hvernig það er búið.

Ég hef lýst því yfir á opinberum vettvangi að ég geti ekki stutt það að augljós fjárfesting ríkisins verði flokkuð sem lán, að augljóst opinbert fyrirtæki verði kallað einkafyrirtæki og þannig haldið á framkvæmdunum. Þess vegna ítreka ég þau tilmæli mín að búa málið í annan búning þannig að þingið geti tekið afstöðu með og á móti þessari framkvæmd en þurfi ekki að fara í umræðu um það hvort verið sé að fara þannig með fjárreiður ríkisins að menn séu raunverulega settir í þá stöðu að þurfa að segja nei við framkvæmdinni vegna þess að þeir eru á móti því hvernig á að fara með ríkissjóð.

Þetta skiptir máli. Ég vil líka benda á annað, hér er um að ræða framkvæmd þar sem á að taka veggjöld og það er ástæða fyrir þingið að skoða hvort ekki þurfi að finna leiðir til að búa þannig um hnútana í fjárlögum að hægt sé að ráðast í slíka framkvæmd (Forseti hringir.) af hálfu ríkisins þar sem um er að ræða töku veggjalda með þeim hætti sem hér gæti verið möguleiki á.