140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að kveðja mér hljóðs um sum þingmál sem fram undan eru og er okkar að afgreiða kannski á þessu þingi, þá sérstaklega rammaáætlun. Rammaáætlun er gríðarmikið plagg þar sem helmingi hugsanlegra virkjanakosta er skipað í verndarflokk og hinum helmingnum í nýtingar- eða biðflokk.

Sú hugsun á bak við það að það þing sem hér situr í dag, 63 þingmenn, eigi að taka ákvarðanir um helminginn af virkjunarkostum og hvernig farið verður með þá um alla framtíð, finnst mér ekki góð. Mig langar að velta þeirri hugsun upp í þingsal að menn velti því alvarlega fyrir sér hvað þeir eru að gera með því að taka ákvörðun fyrir lok maí um að setja 30–35 hugsanlega virkjunarkosti í nýtingarflokk. Með því er verið að ákveða að eyðileggja hugsanlega mjög dýrmæta náttúru til frambúðar.

Það er ekki okkar að ákveða það fyrir framtíðarkynslóðir. Við hv. þingmenn verðum að staldra við og velta því alvarlega fyrir okkur hvort okkur beri ekki að taka þann hluta málsins sem er verndarhlutinn, og er að nokkru leyti óumdeildur, og afgreiða hann og setjast svo niður og velta alvarlega fyrir okkur einhverri nýrri aðferðafræði við að nálgast það hvernig við ætlum að virkja orku á Íslandi, hvort við gerum það út frá einhverjum gersamlega gölnum hugmyndum GAMMA, sem var að skila af sér skýrslu, eða hvort menn ætli að nálgast það á annan hátt og segja sem svo að við munum ekki virkja nema það sé bráðnauðsynlegt og þörf á því.