140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort tekið sé á þeim tveimur meinum sem ollu hruni sparisjóðanna. Í fyrsta lagi því að sparisjóðirnir geti átt hlutabréf sem meginuppistöðu eigna sinna. Dæmi fyrir hrun var Exista og Kaupþing. Í öðru lagi því að hægt sé að mynda hringi til að kaupa stofnbréf þannig að einhver sparisjóður leggur upphæð inn í banka, segjum 100 milljónir, bankinn lánar svo einhverju fólki eða fyrirtækjum úti í bæ til að kaupa stofnbréf í viðkomandi sparisjóði, peningurinn fer í hring. Er á einhvern máta komið í veg fyrir það í þessu frumvarpi? Þetta var meginástæða hrunsins og svo sem víðar. Þetta á líka við hjá hlutafélögum en þetta olli sparisjóðunum miklum vandræðum og þetta olli fólki, þ.e. fjölskyldum víða um. land, óskaplegum harmleikjum, vegna þess að fólk var platað til að taka lán hjá einhverjum banka til að kaupa stofnbréf í átthagasparisjóðunum og stuðla þannig að velgengni átthaganna. Síðan sat það uppi með ónýt stofnbréf vegna þess að sparisjóðurinn hafði keypt hlutabréf í einhverju einu fyrirtæki, Exista eða Kaupþingi, og eignin sem var lánað til var verðlaus og fólkið sat uppi með skuldina. Þetta hefur reyndar lagast, þetta hefur verið leyst, en ég spyr hæstv. ráðherra: Er búið að koma í veg fyrir þessa meinsemd sem var í starfi sparisjóðanna? Ég sé það ekki í þessu frumvarpi.