140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lagabreytingin 2009 var forsenda fyrir því að ríkið gat komið með framlag inn í sparisjóðina. Það er mikilvægur þáttur í þessu öllu saman. Að því er varðar eftirspurn eftir umræðu um grundvallaratriði stjórnmálanna þá held ég að við deilum því, ég og hv. þingmaður, að hafa áhuga á að ræða grundvallaratriði. Ég held að það sé mikilvægt að gera það og átta sig á því í því samhengi að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað gríðarlega mikilvægt sögulegt hlutverk í því að gæta að sérhagsmunum og markaðshagsmunum í samfélaginu og hefur gert það. Hann hefur staðið ágætan vörð um það og hefur auðvitað líka verið málsvari ójöfnuðar og misskiptingar í samfélaginu, eins og hefur endurspeglast í aðgerðum þeirra að því er varðar aðkomu að skattkerfinu í gegnum tíðina. Hins vegar hafa verið önnur stjórnmálaöfl sem hafa lagt megináherslu á jöfnuð og samfélagshagsmuni. Eins og fram hefur komið í ágætri nýútkominni skýrslu er það svo að árangur núverandi ríkisstjórnar er umtalsverður að því er varðar það að styrkja samfélagsjöfnuðinn og ég er ekki hissa á að það fari í taugarnar á þeim flokkum sem stæra sig af því að auka ójöfnuð í landinu áratugum saman.