140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skil ég hv. þingmann þá þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé reiðubúinn að leggja í þá vinnu? (ÁsbÓ: Já.) Já, gott. Þá er það staðfest. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Ég held að það sé alveg rétt að þau vinnubrögð sem við viljum breyta eru ekki eitthvað sem aðeins þessi ríkisstjórn hefur stundað heldur hefur þetta viðgengist í mörg ár. Það gerðist hins vegar eitthvað haustið 2008. Hið sama gerðist fyrir 20 árum í Svíþjóð en þá breyttu menn þar fjárreiðulögum sínum og fóru að taka upp þann mikla og harða aga sem nú viðgengst í þeim efnum.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar kemur fram að nú séu lokafjárlögin lögð fram miklu fyrr en áður hefur tíðkast. Þau eru engu að síður lögð fram 22 mánuðum eftir að fjárlög eru lögð fram, sem er aðeins tveimur mánuðum betur en á árinu 2003. Það er kannski rétt aðeins fyrr en viðgekkst á árunum frá 2000, fyrir utan árið 2002 þegar það tók þrjú ár að leggja fram lokafjárlög. Það hafa vissulega verið stigin hænuskref og betra en engin þannig að við sjáum fram á þann aga sem við þurfum. Það sem ég óttast virkilega, fyrst þessar breytingar á lögum voru ekki lagðar fram núna í vor og við erum að klára að fjalla um þetta núna á þessu vorþingi, að þetta muni einfaldlega hvorki verða fugl né fiskur. Að mínu mati er útilokað að hægt verði að ræða þessar breytingar samhliða fjárlögum ársins 2013.