140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stytting námstíma til stúdentsprófs.

[13:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það að margt er verið að gera núna til að efla starfsnámið og verknámið. Tekið hefur verið mjög myndarlega á þeim málaflokki af hæstv. ráðherra og ríkisstjórn á síðustu árum og er það ánægjulegt. En ég held að markmiðið um að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskólum og til stúdentsprófs með þeim lögum sem breytt var á sínum tíma sem, eins og hæstv. ráðherra nefndi, er svigrúm og heimild til að stytta námstímann. Auðvitað er nemendum í áfangaskólunum í lófa lagið að stytta námstíma sinn með því að hraða sér í gegn en það hefur samt ekki sýnt sig í reynd að það skili nemendum almennt fyrr út úr framhaldsskólunum og eru bóknámsskólarnir áfram besta dæmið um það. Þeir eru starfræktir þannig í öllum aðalatriðum að nemendur eru þar fjóra vetur í stúdentsnámi og útskrifast að því loknu. Okkur hefur því ekki tekist með þeim lagabreytingum sem farið var út í fyrir nokkrum árum í stað tillagnanna frá 2002 (Forseti hringir.) að stytta námið. Ég held að við þurfum að ganga miklu harðar fram í því með lögum sem stytta námstímann heilt yfir í þrjú ár.