140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

lánsveð.

[14:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er nú einmitt vandinn í þessu dæmi að 110%-leiðin er á vissan hátt skynsamleg, vegna þess að þeir sem skulda meira en 110% í eign sinni munu væntanlega ekki greiða mikið af því sem umfram er. (Gripið fram í: Þá má brjóta stjórnarskrána.) En lánsveðin eru í veði í eignum sem eru ekkert endilega mikið veðsettar. Þær geta nánast verið óveðsettar að öðru leyti. Og þær eignir standa alveg fyrir því veði þannig að það eru ekki sömu rök þar á bak við og varðandi 110%-leiðina.

Ég tel því að hæstv. ráðherra verði að beita öðrum ráðum, t.d. að skattgreiðendur greiði þetta allir saman, ekki bara almennu sjóðirnir, eða að fara í gegnum einstök dæmi, vegna þess að sumir eigendur lánsveða eru illa settir en aðrir eru mjög vel settir, eru hátekjumenn. Það eru mjög mismunandi dæmi sem koma þarna upp og lánsveðin verða oft þannig til að foreldrar eru að lána börnum sínum til kaupa á íbúð.