140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hljótum að gera skýlausa kröfu um að fram fari umræða í þinginu um það hvernig staðan er á þessari umsókn, hvar búið er að fara fram úr því umboði sem Alþingi veitti á sínum tíma og þá um leið að kalla eftir því að þingmenn fái að segja álit sitt í atkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram því ferli þar sem farið er út fyrir það umboð.

Ef hv. þingmaður man eftir fleiri atriðum þar sem farið er út fyrir það umboð sem Alþingi fékk er mikilvægt að hann upplýsi um það, ef ekki núna þá síðar, því að ef um nokkur tilvik er að ræða er þeim mun brýnna að fram fari umræða um hvort rétt sé að halda áfram á sömu braut eða ekki. Það er alveg skýr krafa frá þeim er hér stendur að fram fari umræða og síðan muni þingheimur taka ákvörðun um hvort halda eigi (Forseti hringir.) áfram í því ferli sem við erum í núna.