140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega var fjallað um margt í þingmannanefndinni en vinna hennar byggði að öllu leyti á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í þeirri skýrslu er ekki komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og efni hennar hafi orðið völd að hruninu. Nei, það stendur ekki í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Vissulega er í þingsályktunartillögunni sem þingmannanefndin lagði fram talað um breytingar á stjórnarskrá en þær hugmyndir vörðuðu ekki gagngerar breytingar á efni stjórnarskrárinnar og alls ekki allsherjarumbyltingu, heldur var í vinnu nefndarinnar sem átti stoð í rannsóknarskýrslu Alþingis bent á að það þyrfti að breyta meðal annars lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm. Sumt af því kemur jafnframt inn á ákveðin ákvæði í stjórnarskránni. Það er vissulega bara brenglun á því sem gerðist hér og okkar sögu að halda því fram að stjórnarskráin eigi einhvern þátt í því hvernig fór með bankana og bankakerfið.

Meginniðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis er sú að óstjórn innan bankanna hafi valdið því að þeir fóru á hliðina en vissulega eru gerðar athugasemdir við stjórnsýsluna. Við höfum reynt að takast á við þær áskoranir með því að bæta stjórnsýslu okkar en það gengur auðvitað ekki, eins og maður hefur séð vinnubrögð hér í vetur, að fara fram með mál eins og breytingar á Stjórnarráðinu og halda því fram að með því að leggja fram það mál og samþykkja af meiri hlutanum á Alþingi sé komið til móts við allar þær athugasemdir sem gerðar eru af rannsóknarnefnd Alþingis. Það er ekki hægt að haka bara við í listanum að það sé búið að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands. Það verður líka að tékka á því hvert efni þeirra breytinga er sem ríkisstjórnin hefur lagt fram (Forseti hringir.) og vísa ég þar sérstaklega til ábyrgðar ráðherra og þeirrar línu sem verður að vera varðandi ábyrgð ráðherra á undirstofnunum sínum. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið tekið á því í íslenskri löggjöf að mínu viti.