140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér þann munað að íhuga betur svar við síðari hluta spurningar hv. þingmanns. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg búinn að fara ofan í þessa tillögu í áliti meiri hlutans. Það hefur farið fram hjá mér. Þetta þarf að sjálfsögðu að ríma við þá stjórnarskrá sem er í gildi og það slær mig ekki illa að þegar Alþingi hefur samþykkt og gengið frá tillögum sínum fái þjóðin að segja álit sitt á þeim í atkvæðagreiðslum. Ég ætla að geyma mér að hafa skoðun á því hvort það verði bindandi niðurstaða eða leiðbeining til Alþingis að skoða það aftur en það er sjálfsagt að þjóðin komi að þessu með einhverjum hætti. Þetta gæti verið ein leið.

Varðandi röðina á þessum málum öllum er ég á því að þetta sé skökk röð, eins og hefur komið fram hjá mér fyrr í kvöld. Auðvitað geta verið skiptar skoðanir um það og eru það vitanlega en ég hefði haldið að það væri betra að vinna fullmótaðar tillögur eða tillögur sem væru búnar að fara í gegnum þá vinnu sem augljóslega á að vinna með að einhverju leyti í sumar. Það væri betra að geyma það og fara með fullmótaðar tillögur í atkvæðagreiðslu.