140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[10:50]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka upphrópunarmerkin sem hv. þingmaður leggur mér til í fyrirspurn sinni en mér finnst mikilvægt að halda því til haga þegar rætt er um samskipti Íslands við Evrópusambandið að muna að heimurinn er stærri en Evrópusambandið og að samskipti Íslands við heiminn snúast um ýmislegt annað en aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ég hef áhyggjur af því að umræðan um utanríkismál hefur því miður snúist of mikið um þessi samskipti sem eru mjög takmörkuð á heimsvísu og varða bara samskipti velmegandi ríkja þegar fram undan eru í raun miklu stærri og meira krefjandi spurningar sem varða stöðu þróaðra ríkja, eða Vesturlanda, í stóra samhenginu frammi fyrir óumflýjanlegu uppgjöri sem varðar misskiptingu auðs í heiminum (Forseti hringir.) og það verður ekki leyst innan Evrópusambandsins.