140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

[10:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hygg að yfirlýsing hv. þingmanna Hreyfingarinnar frá því á mánudaginn hafi verið til þess ætluð að fá fram skýrari svör en fram komu í þessari umræðu. Ég hygg að yfirlýsing hv. þingmanna Hreyfingarinnar hafi ekki verið til þess fallin að tala um að menn standi saman í sumum málum en ekki öðrum.

Í lok svars síns vísaði hæstv. forsætisráðherra til framhaldsviðræðna og eru það nokkrar upplýsingar. Ég vildi óska að hæstv. forsætisráðherra gæti upplýst okkur enn frekar um þetta vegna þess að þau mál sem hér er um að ræða eru auðvitað ekki einkamál ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar heldur eru það mál sem varða okkur í þinginu mikið og raunar þjóðina alla. En það sem kemur út úr þessum viðræðum og það sem um semst milli ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar er auðvitað eitthvað (Forseti hringir.) sem hafa mun veruleg áhrif á þingstörf næstu daga þannig að ég bið hæstv. forsætisráðherra að skýra nánar (Forseti hringir.) hver staða þessara mála er ef hún mögulega getur.