140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:15]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Mér finnst nauðsynlegt að nýta mér tækifærið sem okkur þingmönnum gefst til að tjá okkur um umdeilt mál í þinginu og nú ræðum við þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af því fordæmi sem þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla gefur. Ég óttast nefnilega að héðan í frá muni þjóðaratkvæðagreiðslur snúast um undirliggjandi hugmyndafræði tillagna sem eru til vinnslu í þinginu en ekki um einstök ákvæði laga sem eru umdeild.

Þegar kosið var til stjórnlagaþings valdi ég og örugglega margir aðrir kjósendur einstaklinga á grundvelli hugmyndafræði þeirra um inntak stjórnarskrárinnar. Ógilding Hæstaréttar á þeirri kosningu breytti því ekki að mati meiri hluta þingsins og því finnst mér skjóta skökku við að leita þurfi aftur sérstaklega álits kjósenda á hugmyndafræði þessara einstaklinga eins og hún birtist núna í tillögum stjórnlagaráðsins.

Ég spyr því meiri hlutann eða þá 30 þingmenn sem samþykktu að fela stjórnlagaráðinu að setja saman ráðgefandi tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins hvort ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sé merki um að þessir hv. þingmenn telji sig hafa gert mistök með því að keyra í gegn stofnun stjórnlagaráðs með ólöglega kjörnum fulltrúum.

Margt af því sem stjórnlagaráðið leggur til er að mínu mati jákvætt og löngu tímabært að verði kveðið á um í stjórnarskránni. Nefna má að þjóðinni er ætlaður málskotsréttur. Í 65. gr. er gert ráð fyrir því að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Það tel ég vera mjög jákvætt ákvæði og er orðið brýnt að komi inn í stjórnarskrá landsins, annaðhvort bætta eða nýja stjórnarskrá. Auk þess er í tillögum stjórnlagaráðs ákvæði sem kveður á um að tveir af hundraði kjósenda eða 2.500 manns geti lagt fram þingmál á Alþingi og að tíu af hundraði kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga fyrir Alþingi. Þessi tvö ákvæði eru í samræmi við stefnu Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, sem stofnaður var á þessu ári og það er einmitt álit margra þeirra sem eru félagar í flokknum að hér sé ekki nógu mikið lýðræði, hvorki í stjórnmálum né í atvinnulífinu. Við teljum að gefa þurfi kjósendum kost á að leggja fram frumvarp á þingi og ekki síst að gefa kjósendum kost á því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál og þá sé ekki krafist hærra hlutfalls kjósenda en 10%. Í þeim spurningum sem meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætlar að leggja fyrir þjóðina er einmitt spurt hvort þjóðin vilji hækka þetta hlutfall og hafa það í 15 eða 20%, sem ég er ekki sátt við. Ég spyr því þá fulltrúa sem samþykktu þessa þingsályktunartillögu af hverju ekki voru sett inn 5%, 10% og 15% þannig að tillaga stjórnlagaráðsins væri í miðjunni. Með því að setja hana sem lægstu kröfu er gefið til kynna að meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þyki þetta of lágt hlutfall.

Það eru ákvæði eða tillögur frá stjórnlagaráði sem ég tel vera til bóta og brýnt að komi inn í stjórnarskrána og jafnframt ákvæði sem ég vil alls ekki sjá í endurbættri stjórnarskrá. Þess vegna held ég að ég eigi, eins og kannski svo margir aðrir kjósendur, í stökustu vandræðum með að svara fyrstu spurningunni í þessari spurningakönnun. Í fyrstu spurningunni stendur, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Valmöguleikarnir eru sem sagt já, nei eða tek ekki afstöðu. Ég get eiginlega hakað við alla þrjá möguleika en ef ég mundi gera það mundi ég sennilega ógilda svar mitt. Ég er sammála því að ákveðnar tillögur stjórnlagaráðs eigi að fara beint inn í stjórnarskrá ef engin lagatæknileg vandkvæði eru á því og við brjótum ekki neina alþjóðasamninga með því. Ég tel samt að sumar aðrar tillögur eigi alls ekki að fara inn.

Hvernig á ég að svara þessari spurningu? Ég er ekki einu sinni viss um að ég mundi mæta í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að ég get ekki komið skoðun minni að á þessum tillögum stjórnlagaráðs.

Ég ætla aðeins að fara í þau ákvæði sem ég hef mestar áhyggjur af og mundi gjarnan vilja vita hvort þjóðin hafi jafnmiklar áhyggjur og ég eða alla vega meiri hluti hennar. Ég hefði kosið að við mundum leggja mjög umdeild ákvæði eða tillögur stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu svo við sæjum það svart á hvítu hver afstaða þjóðarinnar væri í þeim málum en ekki bara einhverja lagatæknilega afstöðu þegar gengið verður endanlega frá nýrri eða bættri stjórnarskrá.

Það ákvæði sem ég hef miklar áhyggjur af er í 67. gr. tillagna stjórnlagaráðsins. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, þann hluta upp sem ég hef mestar áhyggjur af þar:

„Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Ég hef sem sagt áhyggjur af banni við að setja málefni í þjóðaratkvæðagreiðslu sem varða annars vegar þjóðréttarlegar skuldbindingar og hins vegar skattamálefni. Rökstuðningur stjórnlagaráðs fyrir því að banna þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa málaflokka er að svona bann er ríkjandi í Danmörku. Frú forseti. Eigum við ekkert að læra af eigin reynslu og þá sérstaklega eftir hrun þegar við lentum í því að hér var kosin af þjóðinni forusta stjórnmálaflokka sem tók við völdum og virtist ekkert þrá meira en að koma skuldbindingum einkaaðila yfir á skattgreiðendur? Slíkar aðstæður gætu komið upp aftur að hér væru við völd einstaklingar sem þrá ekkert heitar en að losna við vandamál einkaaðila og koma þeim yfir á skattgreiðendur og þá þurfa skattgreiðendur að geta gripið inn í og sagt: Hingað og ekki lengra. En ástæður þess að forustumenn vildu koma einkaskuldum yfir á skattgreiðendur voru einfaldlega þær að þeir vildu halda góðum tengslum við skattgreiðendur í Bretlandi og Hollandi og við hið svokallaða alþjóðasamfélag sem aldrei hefur verið skilgreint.

Þökk sé forseta Íslands tókst forustumönnum þessara stjórnarflokka, sem ríkt hafa frá því í apríl 2009, ekki að koma þessum skuldaklafa einkaaðila yfir á skattgreiðendur. Það var forseti Íslands sem tryggði að þetta skattamál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að læra eitthvað af þessari reynslu okkar eftir hrun í stað þess að líta til Danmerkur sem ekki hefur lent í slíkum aðstæðum, og leyfa þjóðinni að taka ákvarðanir um meiri háttar skattaskuldbindingar eins og Icesave-skuldbindingin snýst um. Það er kannski hægt að takmarka þetta við skattamál sem eru ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu en allar meiri háttar skattaskuldbindingar eru að mínu mati eitthvað sem þjóðin þarf að taka afstöðu til hvort lagðar séu á ríkissjóð.

Ég tel jafnframt mikilvægt að sá möguleiki sé fyrir hendi að kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög þar sem verið er á einhvern hátt að skerða fullveldi þjóðarinnar í þjóðréttarlegum skuldbindingum og það sé ekki bara í hendi ráðherra að gera einhverja samninga þar sem fullveldið er á einhvern hátt takmarkað. Í ljósi þeirra vandkvæða sem ég sé við tillögur stjórnlagaráðs hef ég lagt fram, ásamt öðrum, tvær breytingartillögur og ég íhuga að leggja fram fleiri breytingartillögur því að eftir því sem ég heyrir meira um tillögur stjórnlagaráðs þeim mun fleiri efasemdir vakna hjá mér um önnur ákvæði en 67. gr. sem ég hef helst beint sjónum mínum að. En þær breytingartillögur sem ég legg fram, og lagði reyndar fram strax þegar við hófum fyrri umr. um þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, fela í sér tvær viðbótarspurningar. Önnur spurningin hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem varða skattamál?“

Mjög finnst mjög brýnt að þessi spurning fari inn, ekki síst í ljósi þess að Icesave-málið er enn þá óleyst og ekki ljóst hvernig endalok þess máls verða og hvort þjóðin mun verða sátt við þau endalok.

Hin spurningin sem við viljum nokkur leggja fram hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum?“

Við lögðum sem sagt þessar breytingartillögur eða viðbótarspurningar fram við fyrri umr. og áttum samtal við ýmsa í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að koma þeim inn í spurningavagninn sem leggja á fram í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu en spurningarnar hlutu ekki náð fyrir augum meiri hluta nefndarinnar, því miður. Það kemur reyndar á óvart vegna þess að ég veit alla vega um einn aðila, þingmann og ráðherra, sem ekki segist geta samþykkt þennan spurningavagn nema inn komi spurning varðandi það að banna þjóðaratkvæðagreiðslur um skattaleg málefni. Ég tel að við aukum ekki trúverðugleika þingsins með því að samþykkja með naumum meiri hluta í þinginu spurningavagn sem stór hluti þingsins er mjög ósáttur við vegna þess að það gerir þjóðina óörugga varðandi hver tilgangurinn er með þessum spurningum. Það vekur líka upp spurningar um hvort það hafi einhvern tilgang að mæta í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort niðurstaða hennar muni á einhvern hátt leiða til breytinga eða verða notuð við vinnslu á tillögum þingsins varðandi breytingar á annaðhvort núverandi stjórnarskrá eða tillögu um nýja stjórnarskrá. Ég óttast að kjósendur munu bara sitja heima vegna þess að ekki hefur verið leitað eftir meirihlutasamþykki í þinginu varðandi um hvað á að spyrja og hvernig eigi síðan að fara með niðurstöðuna úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frú forseti. Ég vil enn og aftur hvetja meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að taka allar þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir og allar þær viðbótarspurningar sem lagðar eru til og kanna hvort við eigum ekki að reyna að ná sátt um þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu með því að taka inn spurningar frá öðrum en meiri hlutanum og þeim sem hvað mest hafa barist fyrir nýrri stjórnarskrá, sem er virðingarverð barátta en ég tel að þau hafi ef til vill gengið of langt í að sætta sig við lélegar spurningar til þess eins að koma stjórnarskránni í gegn.

Ég hvet til þess enn og aftur að við vinnum einu sinni saman að því að hanna þessar spurningar þannig að á þinginu ríki mun meiri sátt en nú er um þær spurningar sem lagðar verða fyrir þjóðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.