140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er mergurinn málsins í þessu öllu saman. Hér er verið að leggja til að hafa ráðgefandi skoðanakönnun í október. Segjum sem svo að þingið samþykki þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir, þá er búið að móta hér spurningar sem eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á sama tíma er verið að skipa sex eða sjö manna lögfræðiteymi sem á að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs í sumar. Ég reikna með að þetta lögfræðiteymi komist að niðurstöðu um einhverjar breytingar á þessu máli sem stjórnlagaráð sendi frá sér. Þar með er þjóðaratkvæðagreiðslan gerð úrelt þá þegar. Við það eitt að skipa þetta lögfræðiteymi er þingsályktunartillagan algjörlega orðin úrelt efnislega. Þetta er tóm blekking og það álit ríkisstjórnarinnar með stuðningi þingmanna Hreyfingarinnar gengur út á það að fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og gera svo ekki neitt með það. Eins og þingmaðurinn fór yfir er þetta ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og stjórnvöld eru algjörlega óbundin af því að taka tillit til hennar.

Ég hef farið yfir kostnaðinn, það kostar á bilinu 250–300 milljónir að efna til svona skoðanakönnunar og mér finnst það svolítið hátt gjald sem skattgreiðendur þurfa að greiða til að halda þessari ríkisstjórn á lífi. Það er vitað að hér starfar minnihlutastjórn og það standa yfir miklar samningaviðræður við þingmenn Hreyfingarinnar.

Ég tek einnig undir það hjá hv. þm. Pétri Blöndal að ég sakna þess að sjá ekki þingmenn Hreyfingarinnar í þingsal þegar þetta mál er á dagskrá. Þetta virðist vera þeirra eina stefnumál og eina baráttumál og raunverulega skilyrði þess að þau styðji ríkisstjórnina en aðrir þingmenn hafa ekki hugmynd um hver skoðun þeirra er á málinu því að þau (Forseti hringir.) mæta ekki hingað til að tala fyrir hugmyndum sínum.