140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann ekki alveg að segja frá bakgrunni þeirra sem voru í stjórnlagaráði, ég veit þó að einungis tveir af þeim sem ég reyndi að kjósa í það komust að. Ég veit að margir þeirra sem komust að í stjórnlagaráði höfðu ákveðna forgjöf fram yfir aðra frambjóðendur eftir að hafa verið í kjaftaþáttum og öðru slíku sem er í sjónvarpinu oft og tíðum. Það var svona ákveðin forgjöf sem menn höfðu en allt í lagi með það, ég ímynda mér ekki annað en að allir hafi verið að gera sitt besta og reynt að koma fram með ákveðnar lausnir.

Frá því hefur verið sagt og er ljóst að oft og tíðum þurfti að gera málamiðlanir í vinnu stjórnlagaráðs eins og gengur þegar verið er að semja um hlutina og kann það að endurspeglast eitthvað í orðalagi og öðru sem sett er fram í þessum tillögum.

Í grein sem er undir kaflanum Mannréttindi og náttúra sem er nokkuð viðamikill og ég hef svo sem ekki nefnt það fyrr, frú forseti, en ég verð að viðurkenna að mér finnst vanta svolítið í þessum tillögum að talað sé um rétt fólksins sem býr á Íslandi, að það sé jafnræði milli þess, og hef þar af leiðandi lagt fram breytingartillögur sem lúta að því. Í 7. gr. er talað um að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Eigum við að fara í atkvæðagreiðslu um það? Er einhver á móti því? Hvaða gildi hefur það í stjórnarskrá að allir hafi meðfæddan rétt til lífs? Ég átta mig ekki á því. Ef það er vilji manna að (Forseti hringir.) undirstrika það með einhverjum hætti getur vel verið að það sé meiningin, en ég verð að viðurkenna að ég botna ekki í af hverju þetta er í stjórnarskrártillögum.