140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna skoðun hv. þingmanns hvað þann þátt snertir að full ástæða sé til að varast allt valdaframsal og leitast af fremsta megni við að styrkja fullveldið, hvort sem það er í stjórnarskrá eða annars staðar.

Þessi umræða er víða í gangi, til að mynda í Noregi. Staðan þar er ekki ólík þeirri á Íslandi en þar er mikil andstaða við Evrópusambandsaðild. Að vísu er hún töluvert meiri í Noregi, um 80%, en hér 60–70%. Einn þriðji hluti Norðmanna er líka á móti EES-samningnum en ég hygg að svo sé ekki á Íslandi, ég held það sé meiri stuðningur við hann hér. Þar voru menn að glugga í þessi mál, varðandi valdaframsalið sem tengist EES-samningnum og komust að því, og skrifuðu um það langa skýrslu, að líklega væru þrjár leiðir mögulegar. Í fyrsta lagi að ganga í Evrópusambandið, annars vegar að segja sig úr EES eða í þriðja lagi að reyna að endurskoða EES-samninginn, draga úr fullveldisafsalinu, kafa jafnvel betur ofan í EES-reglugerðirnar. Þeir hafa nú verið að hafna EES-reglugerðum, þannig að þeir hafa verið að spyrna við fótum.

Ef ég misskil ekki hv. þingmann er hann að mælast til þess að við Íslendingar færum þessa þriðju leið, þ.e. að reyna að einhverju leyti að endurskoða EES-samninginn eða annað því um líkt. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji rétt að við leituðum eftir formlegu samstarfi við Norðmenn hvað það snertir að endurskoða EES-samninginn eða draga úr fullveldisafsalinu. Mig langar líka að spyrja hann að því hvort hann telji að þau ríki sem mynda EES hefðu árangur (Forseti hringir.) sem erfiði úr þeim leiðangri, að halda eftir jákvæðu þáttunum í samningnum en á móti (Forseti hringir.) að draga úr fullveldisafsalinu.