140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ég er ekki alveg sammála því. Ég tel að mörg mannréttindaákvæði núgildandi stjórnarskrárinnar eigi einmitt að verja borgarann fyrir öðrum borgurum. Til dæmis má ekki drepa fólk, en það er drepið engu að síður. Það er ekki ríkið sem drepur heldur aðrir borgarar, það eru því miður framin morð. Til að vernda okkur fyrir þessum samborgurum okkar höfum við ríkið.

Ég tel því að við eigum ekki að ganga út frá ríkinu sem sjálfgefnu, að það hafi sjálfstæða tilvist, heldur hefur ríkið þann tilgang að framfylgja mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar svo að aðrir borgarar geti ekki brotið á okkur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um framkvæmdina, um útfærsluna, hvernig þetta mál gengur áfram. Hún nefndi að sérfræðingur hefði bent á að setja fram einskiptisákvæði og ég vil spyrja hv. þingmann, sem situr í þeirri nefnd sem um þetta fjallar, hvort hún hafi kynnt sér frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem ég flutti ásamt mörgum fleiri þingmönnum, um að breyta fyrst 79. gr. varanlega þannig að allar breytingar á stjórnarskránni þurfi mikinn meiri hluta á Alþingi, mjög ríkan, þ.e. 2/3 og fari síðan strax eða nokkurn veginn strax í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem mjög stóran meiri hluta kjósenda, 60% í mínum hugmyndum, þarf til að samþykkja tillöguna. Þá verði breytingin að stjórnarskipunarlögum eða stjórnarskrá.

Þetta þýðir það að þjóðin mundi greiða atkvæði um stjórnarskrána sína í hvert einasta skipti sem henni væri breytt.