140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ræðu hennar og fyrir að rekja hvernig málið stendur og hvernig það mun væntanlega standa næsta haust.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að skipaður hefur verið hópur sérfræðinga til að fara yfir drög að stjórnarskrá sem skilað var inn til Alþingis á síðasta ári. Þeir sérfræðingar munu eflaust sníða agnúa af ef eitthvað stangast á eða einhverju er lagatæknilega ábótavant, en eins og ég skil málið er ekki verið að tala um að þessir sérfræðingar muni fjalla efnislega um hin ýmsu ákvæði og greinar þessara draga.

Eftir að þjóðaratkvæðagreiðslu er lokið, sem væntanlega gæti orðið í lok október næstkomandi, leikur mér forvitni á að vita hvað tekur við. Ljóst er að þá er óðum að styttast í kosningar, áætlað er að kosningar verði í byrjun maí á næsta ári. Það verður því ekki nema rétt um hálft ár til stefnu til að fara efnislega yfir þessa stjórnarskrá af þinginu. Telur hv. þingmaður að sú vinna muni nást sem verður að fara fram og þarf að fara fram í tíma fyrir kosningar þannig að ný stjórnarskrá geti tekið gildi á næsta kjörtímabili?