140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

skimun fyrir krabbameini.

671. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan óska þess að hæstv. ráðherra hefði getað gefið mér skýrari svör um hvernig hann hyggst fara að ályktun Alþingis, en það má kannski segja að þetta hafi verið ákveðið svar hvað þingið varðar því við förum náttúrlega með fjárveitingavaldið. Þarna var sagt að þetta kostaði 75 milljónir.

Það hefur verið bent á að hugsanlega væri hægt að tryggja ákveðna kostnaðarþátttöku sjúklinganna sjálfra í ristilspegluninni, en hið opinbera mundi fyrst og fremst bera kostnaðinn út af upphafsferli skimunarinnar sjálfrar þar sem tekin eru sýni og leitað eftir blóði.

Ég mundi vilja fá að vekja athygli á ályktun frá aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands sem var haldinn nýlega. Þar var einróma samþykkt ályktun um að skora á heilbrigðisyfirvöld að hefja skipulega leit að ristilkrabbameini. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands, haldinn 12. maí 2012, skorar á heilbrigðisyfirvöld að hrinda sem fyrst í framkvæmd lýðgrundaðri skimun fyrir ristilkrabbameini samkvæmt leiðbeiningum embættis landlæknis. Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi og ein algengasta dánarorsök af völdum krabbameins. Rannsóknir hafa sýnt að með skipulegri leit að ristilkrabbameini og forstigi þess hjá einkennalausum einstaklingum 50 ára og eldri er hægt að lækka dánartíðni af völdum sjúkdómsins.“

Ég vil líka gjarnan fá að koma á framfæri, með leyfi forseta, tillögum sem voru lagðar fram á aðalfundinum um hugsanlegar næstu aðgerðir heilbrigðisyfirvalda og vona að hæstv. ráðherra taki það til sín. Lagt er til að landlæknir endurnýi leiðbeiningar sínar um skimun frá árinu 2002, ráðuneytið skipuleggi kynningarátak í framhaldinu og upplýsi fólk um mikilvægi þess að það tryggi jafnvel sjálft að leitað sé eftir sjúkdómnum, að ráðuneytið feli Sjúkratryggingum að skrá (Forseti hringir.) skimun fyrir ristilkrabbameinum. Einnig er nefnt að tilefni sé til að ráðherra riti aðra skýrslu um forvarnir gegn krabbameinum og að (Forseti hringir.) hafinn verði undirbúningur að skipulegri skimun. Svo skal ég reyna að styðja ráðherrann í því að útvega þessa peninga hér á þinginu.