140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma örstutt inn á það sem fram kom í andsvörum milli tveggja hv. þingmanna þar sem talað var um gildi gamallar stjórnarskrár eða hugsanlega nýrrar stjórnarskrár. Mig langar að benda á eina staðreynd, sumir telja það mikilvægasta málið að breyta stjórnarskránni en rekja má allar leiðréttingar sem hafa komið á skuldamálum heimilanna til stjórnarskrárinnar sem nú er í gildi. Það er því dálítið merkilegt þegar menn telja það brýnasta verkefnið að breyta stjórnarskránni.

Mig langar líka að segja að það eru eðlilegri og skynsamlegri vinnubrögð að taka umræðuna um tillögur stjórnlagaráðs inn í þingið áður en farið verður í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að þá getur þingið hugsanlega komist að niðurstöðu og verið sammála stjórnlagaráði í einhverjum ákveðnum hluta tillagnanna, hvort sem það eru 50% eða 60% eða 70%, ég veit ekki um það. Segjum bara að megnið muni smella saman og þá væri hægt að fara með markvissari spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem yrðu leiðbeinandi fyrir þingið við frekari meðferð málsins. Verið er að byrja á öfugum enda með þessum hætti.

Ég hef ekki enn skilið hvers vegna málið er ekki afgreitt með þeim hætti. Við vitum að það þarf að ákveða með þriggja mánaða fyrirvara að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna hefði ég talið réttara fyrir til dæmis hönd hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða meiri hluta hennar að þingið mundi núna afgreiða tillöguna þannig að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust, hvort sem það yrði 20. október eða 15. október eða 20. nóvember, það skiptir ekki öllu máli, bara það tímanlega að það nýttist í þá vinnu sem fram fer næsta vetur. Ég tel mikilvægt að við komum breytingunum og umræðunni inn á haustþingið þannig að við getum farið að ræða það og lendum ekki í tímaskorti undir lok kjörtímabilsins þegar kosningar standa fyrir dyrum og menn verða á kafi í undirbúningi fyrir þær. Þá væri þingið búið að taka ákvörðun um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust. Þá væri hægt að halda áfram þeirri vinnu sem unnin er í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem verið er að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs, stemma þær af og lesa þær saman. Þá væri hægt að fara með miklu markvissari spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu og meira að segja væri hægt að gera það þannig að við afgreiddum tillöguna núna um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan mundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vinna áfram með málið í allt sumar, þ.e. sérfræðingarnir sem nú þegar eru byrjaðir að vinna fyrir þingið. Síðan væri hægt að afgreiða það í september þegar þing kemur saman nákvæmlega hvernig spurningarnar ættu að vera orðaðar og fá þá miklu betri leiðbeiningar frá þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þá hefðum við tíma til að afmarka spurningarnar en ekki vera að gera það í einhverju krampakasti og tímaskorti. Komið hefur vel fram að stór hluti meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ekki mjög lausnamiðaður. Auðvitað væri þetta miklu skynsamlegra við meðferð málsins. Þá væri líka hægt að taka umræðuna jöfnum höndum og þá væri farið yfir tillögurnar og fólk væri miklu upplýstara um það sem fram undan er en að fara að hringla í þessu núna og vinna að breytingum. Síðan gefur augaleið að það verður ekki eins leiðbeinandi fyrir áframhaldandi vinnu í þinginu þegar farið verður að vinna að breytingum á stjórnarskránni í haust eða vetur.

Ég teldi skynsamlegra að gera þetta eins og ég lýsti fyrir alla þá sem vilja koma þessum tillögum í þjóðaratkvæðagreiðslu eða gera skoðanakönnun. Það er uppi mjög mikill misskilningur hjá mörgum í þjóðfélaginu um að þeir séu að fara að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá sem er algjör vitleysa. Það á bara að gera ráðgefandi skoðanakönnun um eitthvað sem ekki er nógu skýrt og enginn veit hvernig taka á afstöðu til. Ef maður fer yfir fyrstu spurninguna segir þar: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Hvað þýðir það ef maður er sáttur við 70% af tillögunum en ósáttur við 30%? Segir maður þá nei þó að maður vilji hugsanlega (Forseti hringir.) nota meginþorra tillagna stjórnlagaráðs?