140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skilaboðin sem komu fram hér í dag voru kannski þau að það væri aldrei eins vitlaust og nú að standa í þessum viðræðum, eitthvað í þá veruna. Undir það held ég að margir geti tekið.

Ein helstu rök þeirra sem fóru fram með þetta mál á sínum tíma voru og eru þau að íslenska þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á einhverjum samningi. Að mínu viti verður sá samningur eða hvað á að kalla þetta frekar eins og staðfestingarplagg um að Íslandi hafi uppfyllt þær skyldur sem aðlögunarferlið gerir ráð fyrir. Þar af leiðandi má segja að það liggi nokkuð ljóst fyrir þegar í dag hvað er í boði hjá Evrópusambandinu því að þetta hefur allt verið gert áður. Við sjáum alveg hvernig hefur verið samið við ríki undanfarin ár og það hefur komið fram í upplýsingaefni frá Evrópusambandinu að um eiginlegar samningaviðræður sé ekki að ræða, heldur sé verið að aðlaga hvert land að þeim köflum Evrópusambandsins sem það hefur ekki verið aðlagað að áður.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki kjörið tækifæri fyrir þá lýðræðiselskendur sem bíða svo eftir því að fá að koma með eitthvað til að leggja fyrir þjóðina til að leyfa þjóðinni, þeirri sömu þjóð og á að taka afstöðu á endanum, að segja álit sitt á þessu ferli. Ég hygg að fáir séu jafn vel upplýstir um ástandið í Evrópusambandinu og Íslendingar sem fylgjast vel með fréttum og fjölmiðlum og sjá hvernig ástandið er þar. Þar af leiðandi held ég að Íslendingar séu mjög vel til þess færir og geti með einföldum hætti gengið til kosninga (Forseti hringir.) og sagt álit sitt á Evrópusambandinu nú þegar.