140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki kynnt mér í þaula þær breytingartillögur sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur lagt fram eða allir þeir hv. þingmenn sem hér um ræðir heldur kýs ég að fjalla fyrst og fremst um eigin tillögur sem ég er skiljanlega sáttastur við í þessu sambandi. En það er alveg rétt að þær spurningar sem hv. þm. Lúðvík Geirsson las upp í ræðustól eru margar óljósar og erfitt að átta sig á því hvert verið er að fara. Sama hygg ég að eigi við um þær spurningar sem lagðar eru fram af meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. (Gripið fram í: Ertu búinn að lesa þær?) Ég nefni sem dæmi spurninguna: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Hvers konar ákvæði um þjóðkirkju? Eins og það er í dag? Eins og það er í meðförum stjórnlagaráðs? Einhvern veginn öðruvísi? Já eða nei við svona spurningu veitir engin svör.

Sama á við um næstu spurningu: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör heimilað í meira mæli en nú er? Það segir okkur ekkert um hvaða útfærsla gæti orðið fyrir valinu. Það er mjög auðvelt fyrir fólk að segja: Já, ég vil að það verði meira persónukjör, en það getur verið mjög erfitt fyrir fólk að komast að niðurstöðu um það hvers konar persónukjör ætti að vera af því að það er hægt að fara margar mjög mismunandi leiðir í þessu sambandi þannig að svar við þessari spurningu veitir okkur mjög takmarkaða leiðsögn.

Svo má nefna önnur dæmi: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Já, já, það er hægt að samþykkja það. En eru það 5%, 10%, 20%, 30%? Það getur skipt grundvallarmáli hvort um er að ræða háan þröskuld eða lágan í því sambandi. Svarið við spurningunni eins og hún er orðuð af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar veitir okkur enga leiðsögn um niðurstöðu í þeim efnum.