140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu. Ég hafði hugsað mér að flytja einfalda breytingartillögu við eina af spurningunum og vildi fá tækifæri til þess að kynna hana. Hún er svona, með leyfi virðulegs forseta:

„2. töluliður 3. efnismálsgreinar orðist svo: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign lýstar ævarandi opinber eign?“

Ástæðan fyrir því að ég legg þetta til er að með þessu er miklu skýrar að orði kveðið hvað átt er við. Hugtakið „þjóðareign“ er frekar loðið, um það standa miklar deilur hvað átt er við. Ég hef bent á að það getur til dæmis þýtt að kona eða karl af íslensku bergi brotinn sem býr megnið af ævinni erlendis telst áfram vera hluti af íslenskri þjóð — og þá vaknar sú spurning hvort um er að ræða einhvers konar réttindi sem viðkomandi einstaklingur fær með því að svona ákvæði yrði sett inn í stjórnarskrá.

Einnig virðist sá skilningur að baki hugtakinu, þ.e. að um sé að ræða opinbera eign, komið fram hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins sem lagt hafa þessa málsmeðferð til. Vart getur verið að einungis sé það hugsað sem ríkiseign af því að ýmsar náttúruauðlindir eru nú þegar undir eign sveitarfélaganna, þess vegna orða ég það svo að um sé að ræða opinbera eign. Ef Alþingi ákveður á annað borð að fara þessa leið, að leggja þessar spurningar fram í þjóðaratkvæðagreiðslu — sem ég er á móti — þá legg ég til að þær verði í það minnsta orðaðar þannig að þjóðin viti nákvæmlega hvað verið er að spyrja um, að hugtökin séu skýr og að afleiðingarnar, þ.e. ef menn segja já eða nei, blasi við.

Ég held að það sé miklu skýrara og heiðarlegra, virðulegi forseti, að tala um opinbera eign, af því að það er hvort eð er það sem talað er um í ýmsum málsskjölum og hefur komið fram hjá ýmsum hv. þingmönnum — í stað þess að nota orðið þjóðareign, sem hefur alla þá ágalla sem hér hefur verið lýst af mörgum hv. þingmönnum og eins af fræðimönnum sem skrifað hafa um þetta mál.