140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

752. mál
[17:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ef ég hef skilið ráðherra rétt er það í þessari almennu skýringu á bls. 6 sem kemur fram að ríkisvaldið eigi að setja upp mælistöðvar og reka loftleiðalíkan og gera það sem kostnaður liggur fyrir.

Þá langar mig að spyrja hvort það hefði ekki verið hreinlegra að það stæði í lögunum sjálfum en ekki þannig að talað sé um, ef maður til að mynda skoðar bæði kostnaðarmat umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytisins, Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi veri haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga við samningu þessa frumvarps.

Svo er einn þáttur sem ég veit ekki hvort við höfum tíma til að fara út í, en ég mun taka aðeins fyrir í ræðu minni á eftir, og hann varðar þaktilskipunina svokölluðu, hvernig samráðsferli hafi verið háttað við orkugeirann í sambandi við jarðvarmavirkjanir og hvort þær tilskipanir og þau mörk sem þar eru sett séu sett með og í samráði við þennan mikilvæga geira hér á landi. Hér er mikið um hveri og mörg jarðhitafyrirtæki. Við nýtum jarðvarma til margra hluta. Eru þau mörk sem þar eru sett sett í samráði við þá aðila þannig að þau séu í raun og veru náanleg? Ég vil heyra álit ráðherra á þessu líka.