140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Nokkuð hefur farið fyrir umræðu um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins að undanförnu. Ýmsir þeir sem eru andsnúnir aðild Íslands að bandalaginu telja rétt að taka afstöðu til áframhalds viðræðnanna sem fyrst. Aðrir í hópi ESB-andstæðinga telja að ljúka eigi viðræðunum og bera samningsniðurstöðuna að því búnu undir þjóðaratkvæði.

Það er einlæg sannfæring mín að þjóðin eigi að ráða til lykta niðurstöðu í Evrópusambandsmálinu á grundvelli endanlegrar samningsniðurstöðu (VigH: Er þetta atkvæðaskýring?) þar sem látið hefur verið reyna á öll hagsmunamál Íslands og þau vegin og metin. Þann lýðræðislega rétt á ekki og má ekki taka af þjóðinni. Verði það gert er það ávísun á margra ára þrætur um tengsl Íslands við Evrópusambandið og málið yrði því ekki útkljáð, þrætur sem byggðu á því að þjóðin hafi ekki fengið raunverulegt tækifæri til að vega kosti og galla ESB-aðildar.

Ég tel rangt að tefla málinu í þá tvísýnu í stað þess að treysta dómgreind þjóðarinnar þegar öll kurl eru komin til grafar í formi samningsniðurstöðu. Hugmyndir um að efna til atkvæðagreiðslu um afmarkaða þætti, jafnvel einstaka kafla samningsviðræðna, eru þessu marki brenndar. Enda þótt sú afstaða mín að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan ESB en innan hafi margsinnis komið fram tel ég enn fremur brýnt að standa vel og vandlega að þeim viðræðum sem Alþingi samþykkti. Það er skylda stjórnvalda að tryggja að þeir kostir sem þjóðin stendur frammi fyrir að lokum, óháð því hvaða leið verður ofan á, séu til heilla fyrir land og þjóð. Þjóðin á rétt á að taka ákvörðun um framtíð sína á grundvelli raunsannra upplýsinga og ljósrar samningsniðurstöðu en ekki á grunni stóryrtra frasa sem ýmist gylla eða svartmála afleiðingar aðildar að Evrópusambandinu.

Af þessum sökum er það niðurstaða mín að heillavænlegast sé að ljúka aðildarviðræðum með samningsniðurstöðu sem fari í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu að lokinni ítarlegri kynningu þar sem öll sjónarmið fá að njóta sín. Þannig verður niðurstaða þjóðarinnar í þessu afdrifaríka máli varanleg og virt.