140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:42]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sú tillaga sem ég hef lagt fram ásamt nokkrum öðrum þingmönnum fjallar um að bætt sé við lið í spurningavagninum:

„Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur opinberri þjónustu, óháð búsetu?“

Jafnframt:

„Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur að þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum vegna hins opinbera, óháð búsetu?“

Ég vil draga það sérstaklega fram að í tillögum sem hér liggja fyrir af hálfu stjórnlaganefndar og þeirrar nefndar sem lagði þessa tillögu fram finnst mér vera mjög hallað á rétt landsbyggðarinnar og þess vegna dreg ég þetta fram.

Frú forseti. Ég treysti því samt að þegar málið kemur aftur inn til þings í haust verði tekið enn fastar á þessu máli og því kalla ég þessa tillögu til baka.