140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Já, ég vil að þjóðin greiði atkvæði um þessa spurningu og ég byggi það á ályktunum flokks míns. Ég vil hins vegar taka fram (Gripið fram í.) að ég tel að þetta þurfi að fara fram með ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði eru að áfram verði kjördæmi og að valddreifing og jafnræði til búsetu verði tryggt með ákvæði í stjórnarskrá.

Þetta byggi ég á ályktun flokksþings 2011 sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við viljum að vægi atkvæða verði jafnað eins og kostur er.

Við höfnum því alfarið að landið verði gert að einu kjördæmi“ eftir ákvæðum í grundvallarstefnuskrá flokksins um þjóðfélagsgerð, stjórnarfar og búsetuskilyrði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)