140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þá breytingu sem hér er undir er hægt að gera með breytingu á kosningalögum. Það er hægt, vilji menn það, að jafna atkvæði kjósenda um allt land þannig að það sé um það bil sami atkvæðafjöldi að baki hverjum þingmanni á Alþingi hvaðan sem þeir koma úr kjördæmunum. Það álitamál hvort jafna eigi frekar atkvæðaréttinn verður í raun og veru að ræða í samhengi við miklu stærri álitamál, eins og kjördæmin og fleira sem að því lýtur.

Það var gerð mikil grundvallarbreyting þegar tryggt var með breytingu á kosningalögunum að aldrei yrði nema helmingsmunur á atkvæðavægi á bak við hvern þingmann. Í mínu kjördæmi hafa þingmenn verið að tínast úr einu kjördæmi í samræmi við það sem hefur verið að gerast með íbúafjöldann. Höfuðborgarsvæðið hefur meiri hluta þingmanna í dag og frá því að þessi breyting var gerð með algerri (Forseti hringir.) jöfnun atkvæða yrði gríðarlega mikil röskun á því jafnvægi sem hefur verið á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Ég sakna þess að þeir sem eru hlynntir málinu komi upp og segi hug sinn allan, þ.e. stuðningsmenn þess (Forseti hringir.) að atkvæðavægi verði jafnað, endilega stígið fram og talið fyrir því.